Ferskasti Borgarinn

BRAKANDI FERSKLEIKIFerskasti borgarinn

Hráefnið fyrir 4

 • 500 gr Íslandsnaut nautahakk
 • 100 gr brauðraspur
 • 1 stk hvítlauksgeiri, marður
 • 3 msk teriyaki-sósa
 • 1 msk Dijon-sinnep
 • Salt
 • Nýmalaður Pipar
 • 4 stk hamborgarabrauð
 • 1/2 stk laukur, skorinn í sneiðar
 • 1/2 stk paprika, kjarnhreinsuð og skorin í snieðar
 • Engifer- og hvítlauksdressing

Aðferðin

Hamborgarabuff: Blandið öllu saman og mótið borgara, u.þ.b. 150 g, úr blöndunni. Steikið borgarana á vel heitri pönnu upp úr svolítilli olíu í 3-4 mín. á hvorri hlið.

Samsetning: Ristið laukhringi á pönnu og setjið á hamborgarabrauð ásamt paprikusneiðum. Leggið borgara ofan á grænmetið og toppið með engifer- og hvítlauksdressingu og brauði. Berið fram með blönduðu, grænu salati, tómötum, gúrku og ferskri basilíku ásamt engifer- og hvítlauksdressingunni.

KOKKURINNFRIÐRIK SIGURÐSSON

MATREIÐSLUMEISTARI

Garðbæingurinn Friðrik Sigurðsson er ættaður af Langanesi og hóf sitt matreiðslunám á Naustinu aðeins 16 ára gamall en á þeim tíma voru aðeins örfáir veitingastaðir í Reykjavík. Hann flutti til Danmerkur og Svíþjóðar um tíma og sótti sér þar aukna menntun og reynslu í faginu. Hann kom heim í kringum 1980 þegar veitingahúsabyltingin var um það bil að hefjast í Reykjavík og fór að vinn á Torfunni. Friðrik var í Landsliði matreiðslumeistara í 5-6 ár, frá 1994-2000 og hann rak Hótel Hvolsvöll og Hlíðarenda í 10 ár auk þess sem hann opnaði veitingastaðinn Tvo fiska ásamt félaga sínum. Í dag vinnur Friðrik hjá Utanríkisráðuneytinu þar sem hann sér um mötuneytið, veislur og allt sem viðkemur mat. Fyrir nokkrum árum stofnaði Friðrik svo Bocuse d‘Or Akademíuna ásamt fleirum en hún hefur það að markmiði að finna unga og efnilega matreiðslumenn til að taka þátt í hinni virtu Bocuse d‘Or-keppninni.

Friðrik býr ásamt eiginkonu sinni og þremur yngstu börnum þeirra og segist oftast sjá um eldamennskuna. Það stafar aðallega að því að hann er sneggri að elda og svo hefur hann líka gaman af því sem er mikill kostur fyrir atvinnumann í matreiðslu. Hann segist helst bjóða upp á klassískan heimilismat þótt pítsur og hamborgarar séu auðvitað á boðstólum öðru hvoru.

Friðrik segist eiginlega hafa verið í vinnunni allt sitt líf en hans helstu áhugamál eru ferðalög og hann hefur verið svo heppinn að fá að ferðast vinnunnar vegna og m.a. tekið þátt í norrænu samstarfi og kynnt sér norræna eldhúsið sem hann hefur mikinn áhuga á. Hann nefnir einnig störf sín innan Bocuse d‘Or Akademíunnar og matreiðslukeppnir. Friðrik er mikill sundmaður og stundar sund a.m.k. annan hvern dag en hann segist vera lítill dellukall þótt hann hafi gaman að veiði og þess háttar. Skemmtilegast finnst honum að eyða góðum tíma með fjölskyldunni.

Um þennan hamborgara: „Ég hef ákveðna skoðun á hamborgurum. Það er svo oft talað um þetta sem óholla fæðu en ég er ekki sammála því. Það er hægt að gera alla fæðu óholla, það fer bara eftir hráefninu sem er notað. En ég geri ekkert svo mikinn greinarmun á fæðu, vel gerður hamborgari er alveg jafn merkilegur og nautafillet. Ef hráefnið er gott og magnið í réttu hlutfalli er allur matur fínn.“

NÝJAR VÍDDIR Í HAMBORGURUMHvað er Smash Style?

Smash Style er aðferð sem er uppruninn í Ameríku, sem oft er talinn vera aðal hamborgaraþjóð heims. Aðferðin felst í að hamborgarinn er lausmótaður án pressu og hefur notið vinsælda um allan heim.

Eingöngu er notað ferskt íslenskt ungnautakjöt með allt að 20 % fitu innihaldi sem gerir hamborgararnn sérstaklega mjúkann ,safaríkan og bragðgóðan. Hamborgarinn er til 100.gr ,120,gr og 140 gr .

Allar vörurnar okkar fást hjá

 • Hagkaup
 • Bónus