siggaborgari

BÉ EÐA PÉ, HVERJUM ER EKKI SAMA!Siggaborgari

Hráefnið fyrir 4

 • 650 gr Íslandsnaut nautahakk
 • 2 stk hvítlauksgeirar, maukaðir
 • 1/2 laukur, fínt saxaður
 • 2 stk egg
 • 1 msk Cajun-krydd (Bayou Cajun frá McCormick)
 • 1/3 stk chili-aldin, fínt saxað
 • 2/3 stk piparostur,rifinn
 • Salt
 • Nýmalaður Pipar
 • 4 stk hamborgarabrauð
 • Hvítlaukssósa
 • Grænmeti, eftir smekk
 • Guacamole

Aðferðin

Blandið öllu saman og mótið borgara. Grillið borgarana eða steikið á pönnu, passið bara að þeir séu steiktir í gegn þar sem þeir eru mjög þykkir. Leggið ostsneið ofan á. Smyrjið hamborgarabrauð með hvítlaukssósu. Veljið ykkur meðlæti eftir smekk og raðið ofan á hamborgarabrauðið, t.d. salat, gúrkur, tómata og rauðlauk og mjög gott er að hafa smjörsteikta sveppi líka. Leggið hamborgara ofan á grænmetið og setjið guacamole ofan á, toppið með hamborgarabrauði.

KOKKURINNSIGURÐUR GÍSLASON

MATREIÐSLUMEISTARI

Sigurður Gíslason matreiðslumeistari, oftast kallaður Siggi, er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum en 16 ára flutti hann þaðan og hóf nám í Hótel- og veitingaskólanum. Hann lærði í Perlunni og hefur sótt sér þekkingu víða, m.a. í Frakklandi, Bandaríkjunum og á Bahamas. Siggi var í Kokkalandsliðinu um tíma og kom með félögum sínum þar að útgáfu bókarinnar Landsliðsréttir Hagkaupa, hann hefur tvisvar hlotið annað sæti í keppninni um Matreiðslumann ársins, gaf út Stóru matreiðslubók Disney og hefur að auki komið fram í vel þekktum sjónvarpsþáttum erlendis, m.a. hjá hinum illskeytta Anthony Bourdain. Siggi hefur í nokkurn tíma rekið veitingastaðinn Nítjándu í Turninum í Kópavogi sem er vinsæll og fjölskylduvænn veitingastaður með gríðarlegt útsýni yfir höfuðborgina.

Á heimili Sigga er það yfirleitt hann sjálfur sem eldar því hann nennir ekki að bíða eftir matnum. Þegar konan hans tekur sig til við matreiðsluna hjálpar Siggi henni með því að skera niður og hafa allt tilbúið fyrir hana. Hann segir að börnin þeirra hjóna séu rosalega dugleg að prófa sig áfram í eldhúsinu, honum hafi t.d. verið færðar grænar pönnukökur einn sunnudagsmorguninn.

Helsta áhugamál Sigga er motorcross og það sport stundar hann í frítíma sínum auk þess að eyða honum í faðmi fjölskyldunnar. Hann segir eina lítt þekktustu staðreyndina um sig vera þá að hann ruglar alltaf saman B og P, stundum með mjög hlægilegum afleiðingum.

Um þennan hamborgara:
„Ég er mikill hamborgarakall og borða hamborgara minnst tvisvar sinnum í viku. Þessi hamborgari varð til því mig langaði til að búa til almennilegan hamborgara með alvöru bragði. Það er algjört frumskilyrði að nota almennilegt nautakjöt hamborgarann.“

NÝJAR VÍDDIR Í HAMBORGURUMHvað er Smash Style?

Smash Style er aðferð sem er uppruninn í Ameríku, sem oft er talinn vera aðal hamborgaraþjóð heims. Aðferðin felst í að hamborgarinn er lausmótaður án pressu og hefur notið vinsælda um allan heim.

Eingöngu er notað ferskt íslenskt ungnautakjöt með allt að 20 % fitu innihaldi sem gerir hamborgararnn sérstaklega mjúkann ,safaríkan og bragðgóðan. Hamborgarinn er til 100.gr ,120,gr og 140 gr .

Allar vörurnar okkar fást hjá

 • Hagkaup
 • Bónus